Við hjá Verkvist höfum átt ógleymanlegt fyrsta starfsár og nýlega héldum við innflutningsjólaboð til að fagna þeim áfanga og flutningum í nýjar starfsstöðvar. Boðið var vel sótt af viðskiptavinum, samstarfsfélögum, vinum og ættingjum sem tóku sér tíma til að eiga góða stund með okkur. Þar var rætt um þjóðmál og byggingar yfir ljúffengum veitingum eins og smurbrauði, piparkökum, mandarínum og jólaöli. Svei mér þá ef þetta verður ekki árlegt!
Það er okkur sannarlega gleði- og þakkarefni að segja frá því að frá því við byrjuðum þrjú saman 1. mars, verðum við orðin 13 starfsmenn um áramót – rétt eins og jólasveinarnir! Það er einstaklega viðeigandi á þessum hátíðartíma, og við erum þakklát fyrir þann mikla stuðning og traust sem við höfum fengið.
Við erum einstaklega lánsöm að deila leigu að nýju, glæsilegu húsnæði okkar við Hallgerðargötu með nokkrum framsæknum fyrirtækjum, eins og til dæmis, Líf byggingar og 3H. Þetta gerir okkur kleift að njóta framúrskarandi innivistar, stórkostlegs útsýnis og hagkvæmrar aðstöðu. Sambýlið skapar lifandi og skemmtilegt andrúmsloft þar sem dagarnir eru bæði fjölbreyttir og skapandi – fullkomin blanda af vinnu og gleði!
Á þessum tímamótum viljum við ekki aðeins horfa til baka, heldur líka til framtíðar. Við óskum landsmönnum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs, með þá von í brjósti að byggingariðnaðurinn haldi áfram að þróast í átt að heilnæmari og vistvænni byggingum – fyrir lýðheilsu þjóðarinnar og umhverfi okkar allra.
Kærar þakkir fyrir góðar viðtökur á árinu sem er að líða – saman gerum við góðar hugmyndir að veruleika!
– Jólakveðjur frá jólasveinum VERKVISTAR
Commentaires