Fjarvinna og loftgæði, samanburður á loftgæðum á milli heimila og vinnustaða.
- Íris Magnúsdóttir
- Apr 3
- 2 min read
Updated: Apr 5
Rannsókn Árnu Benediktsdóttur, nýútskrifaðs byggingartæknifræðings frá HR og sérfræðings í innivist og loftgæðum hjá VERKVIST gefur til kynna mun á loftgæðum milli hefðbundinna skrifstofa og heimavinnuumhverfis. Loftgæðin voru almennt breytilegri og óheilnæmari á heimaskrifstofum.
f

Árna Benediktsdóttir er nýútskrifuð með BS-próf í byggingartæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur verið í hlutastarfi hjá VERKVIST frá því að fyrirtækið var fyrst stofnað en hún var fyrsti starfsmaðurinn inn í fyrirtækið eftir að það var stofnað í mars 2024. Árna hefur nú hafið fullt starf hjá VERKVIST.
Lokaverkefni Árnu „Samanburður á loftgæðum á vinnustöðum og í heimahúsum“, hlaut tilnefningu sem eitt af fjórum bestu lokaverkefnum annarinnar í tæknifræði við HR. Leiðbeinendur hennar voru þau Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur, lýðheilsufræðingur og eigandi VERKVISTAR og Dr. Ólafur H. Wallevik hjá Háskóla Reykjavíkur.
Mælingar voru gerðar á helstu þáttum sem hafa áhrif á inniloft, m.a. styrk koltvísýrings (CO₂), magni rokgjarnra lífrænna efnasambanda (VOC e. volatile organic compounds), hitastigi og hitasveiflum, raka sem og magni svifryks í andrúmsloftinu.

Niðurstöður verkefnisins sýndu fram á mun á loftgæðum. Á hefðbundnum skrifstofum var koltvísýringur yfirleitt innan viðmiðunarmarka, á meðan hann mældist oft yfir mörkum í heimahúsum vegna takmarkaðrar loftræstingar. Einnig voru gildi rokgjarnra lífrænna efnasambanda (VOC) að jafnaði lægri á vinnustöðum sem búa yfir öflugri loftræstingu, en hærri í heimahúsum. Hitastig var yfirleitt stöðugra og jafnara á skrifstofum en í heimaskrifstofum, og magn svifryks reyndist oft meira í heimahúsum.

„Heimavinnuumhverfið felur í sér fleiri áskoranir hvað varðar loftgæði en hefðbundnir vinnustaðir sem treysta á vélræna loftræstingu“ segir Árna og leggur áherslu á ályktun rannsóknarinnar. „Því er brýnt að auka vitund um loftgæði heima fyrir og grípa til aðgerða til að viðhalda heilnæmu lofti, til dæmis með reglulegri loftun og réttri loftræstingu.“
Áhugasviðið liggur á sviði loftgæða og innivistar
Hjá VERKVIST mun Árna nýta sína sérþekkingu á þessu sviði. Hún mun einbeita sér að málefnum sem varða loftgæði og heilnæma innivist. Árna hefur öðlast umtalsverða reynslu sl. ár af störfum sínum samhliða námi bæði hjá VERKVIST og áður hjá Eflu, Colas við gæðaeftirlit og HR í námi við byggingartækni. Hún var einnig aðstoðarkennari í jarðtækni hjá HR árið 2022-2023.
„Ég er mjög stolt af því hvernig hún vann verkefnið og rannsóknina en þekkingin mun nýtast okkur áfram til frekari rannsókna og við ráðgjöf. Með ráðningu Árnu í fullt starf eflum við enn frekar sérfræðiþekkingu VERKVISTAR á sviði loftgæða og innivistar. Við fögnum útskrift hennar“, segir Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, einn af eigendum VERKVISTAR.
Lokaverkefnið og rannsóknina í heild sinni má finna á vef Skemmunnar
Comments