Jón Pálsson er nýr leiðtogi VERKVISTAR í verkefnastjórnun
- Íris Magnúsdóttir
- Dec 19, 2025
- 3 min read
Updated: Dec 22, 2025
Það er okkur hjá VERKVIST sönn ánægja að kynna Jón Pálsson sem nýjan leiðtoga verkefnastjórnunar, en hann hóf störf hjá fyrirtækinu í september. Jón er véla- og rekstrarverkfræðingur með M.Sc. frá Aalborg University og Executive Blue MBA frá Copenhagen Business School. Hann hefur víðtæka reynslu af verkefnastjórnun, rekstri, nýsköpun og byggingarframkvæmdum – bæði sem stofnandi, framkvæmdastjóri og ráðgjafi. Jón hefur einnig byggingarstjóraréttindi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS).
Frétt um Jón birtist á síðu Viðskiptablaðsins í dag (22. des 25)
Byggði upp saltvinnslu með jarðhita – byggir nú upp svið verkefnastjórnunar hjá VERKVIST
Margir þekkja Jón sem meðeiganda Björns Steinars, sonar síns, að Saltverki ehf., frumkvöðlafyrirtækis sem hefur vakið athygli fyrir framleiðslu á íslensku sjávarsalti með notkun jarðhita á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Hjá Saltverki leiddi Jón uppbyggingu tæknikerfa og framleiðslulínu, ásamt verkefna- og rekstrartengdum lausnum. Björn hefur nú keypt hlut Jóns í félaginu eftir 13 ára farsælt samstarf þeirra feðga.
Fyrir stofnun Saltverks hafði Jón átt í rekstri verktakafyrirtækisins Ans ehf., Verkfræðistofunnar Hafnar og öðrum félögum tengdum fasteignaþróun. Hann fór fyrir fyrirtækjunum Tetra Íslandi, Højgaard & Schultz á Íslandi og Ármannsfelli ásamt því að vera þróunarstjóri Samskipa um fimm ára skeið.

Hjá VERKVIST hefur Jón þegar hafist handa við innleiðingu á nýju gæða- og verkefnastjórnunarkerfi hjá VERKVIST sem er einnig um þessar mundir í ISO 9001 vottunarferli til að bæta ferla og gæði þjónustunnar til viðskiptavina.
„Með komu Jóns verður okkur kleift að fylgja verkefnum enn markvissar eftir. Ætlunin er að efla verkferla og breikka svið verkefna og ráðgjafar í takt við vaxandi eftirspurn viðskiptavina eftir heildrænni þjónustu. Reynsla Jóns spannar allt frá frumkvöðlastarfi og hönnunar til framkvæmda og rekstrar – afar sjaldgæf blanda sem nýtist vel í fjölbreyttum verkefnum VERKVISTAR“, segir Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri VERKVISTAR.
Unnu fyrst saman að frumkvöðla- og þróunarverkefni um stofnun heilsuklasa
Leiðir Jóns og Sylgju lágu fyrst saman árið 2012 þegar þau unnu að frumkvöðlaverkefni við stofnun heilsuklasa sem síðar sá um verkefnastjórnun m.a. á Heilsueflandi samfélagi í Mosfellsbæ.
Um var að ræða þróunarverkefni þar sem Mosfellsbær, í samstarfi við Embætti Landlæknis, tók forystuna sem sveitarfélag við að styðja íbúa sína í átt að betri lífstíl og heilsu. Markmiðið var að auka heilsuvitund og sporna við frekari hættu á lífsstílssjúkdómum. Verkefnið endurspeglaði sameiginlega sýn Jóns og Sylgju sem hefur ekki breyst öll þessi ár – umhyggju fyrir umhverfinu og lýðheilsu. Þau hafa bæði sótt í að sinna verkefnum á þeim nótum alla tíð.

Þegar Jón fór að hugsa sér til hreyfings úr saltvinnslunni varð VERKVIST honum efst í huga. Hann hafði fylgst með fyrirtækinu vaxa og dafna í þá átt sem hann sá fyrir sér að verða hluti af og hafa frekari áhrif á með sinni reynslu og þekkingu. Hann er sammála sýn VERKVISTAR á að byggingar eigi að vera fyrir fólk og því þarf að huga að mörgu þegar kemur að gæðum og verkferlum.
Umhyggja, fagmennska og framsækni
VERKVIST er ung verkfræðistofa en stofnendur sem eru reynsluboltar úr iðnaðinum hafa byggt fyrirtækið upp með jöfnu kynjahlutfalli og fjölbreyttum aldurshópi. Lögð er áhersla á að sýna fólki og umhverfinu umhyggju og virðingu og skapa vinnuumhverfi þar sem starfsmenn læri hver af öðrum og hafi rödd. Áhersla er lögð á að lágmarka vistspor og að byggingar eigi að vera fyrir fólk - í raun að húsin séu mönnum og dýrum hæf.
Velkomin Jón til starfa
Teymið hjá VERKVIST





Comments