Leitarniðurstöður
36 results found with an empty search
- Meðleigjandi óskast
Spennandi tímar framundan hjá VERKVIST. Við munum flytja ásamt 3H ráðgjöf upp á 5.hæð í Hallgerðagötu 13 í haust í glæsilegt nýtt húsnæði með geggjuðu útsýni. Að sjálfsögðu verður hugað að innivist, loftgæðum og sjálfbærni en umfram allt að skapa skemmtilegt vinnuumhverfi til að sinna krefjandi og áhugaverðum verkefnum . Við óskum eftir meðleigjanda Hafið samband verkvist@verkvist.is
- Brýnir mikilvægi ástandsskoðana heimila - heilsunnar og fjárhagsins vegna
Hlynur Júlíusson, fagstjóri hjá VERKVIST verkfræðistofu hefur umsjón með heimilisskoðunum hjá fyrirtækinu. Hann var rétt í þessu að taka við nýrri sendingu sem inniheldur mælitæki og tól til rakaskimunar fyrir byggingar. Hann hefur brennandi áhuga á starfinu sínu og hefur um margra ára skeið unnið að fjölmörgum verkefnum tengdum innivist, ástandsskoðunum, gallagreiningum, tillögum að endurbótum og viðhaldi bygginga fyrir sveitarfélög, ríkið, borg og einkaaðila. Við náðum af honum tali á leiðinni út en hann var fullur tilhlökkunar að prufa nýju hitamyndavélina og mælana í næstu skoðun. Hvernig fer heimilisskoðun fram? „Úttekt heimilisskoðana hjá VERKVIST fer þannig fram að rakaskimað er meðfram útveggjum, undir gluggum, framan við útihurðar, í votrýmum og á áhættusvæðum. Stundum sést greinilega að það er raki í húsnæðinu en oft er hann leyndur, undir gólfefnum eða djúpt inn í byggingarefnum og því erfiðara að vita hvað um er að vera. Til þess notum við ýmsar aðferðir og ekki síst fyrri reynslu okkar og þekkingu. Við rakaskimun leitum við að frávikum, skoðum þau svæði nánar, finnum orsökina og metum afleiðingarnar. Í framhaldi er gefin ráðgjöf varðandi næstu skref og úrbætur. Í sumum tilfellum er þörf á sýnatöku þegar staðan er ekki ljós eða til að gefa okkur betri mynd af því hversu langt þarf að ganga í endurnýjun byggingaefna“, segir Hlynur. Vinnum þvert á teymin og aðstoðum hvort annað með lausnir „Ég er svo lánsamur að hafa unnið með og haft frábæra lærimeistara og má þá helst nefna Sylgju Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðing og lýðheilsufræðing sem hefur verið leiðandi í húsaskoðunum og heilnæmri innivist sl. 18 ár en hún stýrir sviðinu Innivist og lýðheilsa hjá VERKVIST. Hvernig snýr landsbyggðin sér að? „Fyrir þá sem búa úti á landi eða hentar betur að fá ráðgjöf símleiðis eða í gegnum myndspjall er hægt að panta viðtalstíma hjá sérfræðingum okkar. Stundum er það gert sem fyrsta skref og aðstoðum við eins mikið og unnt er varðandi rakavandamál, mótvægisaðgerðir, úrbætur og næstu skref í átt að betri heilsu. Ef óskað er eftir að við komum út á land í skoðanir þá að sjálfsögðu aðstoðum við fólk með það. Oft reynum við að para saman nokkrar skoðanir ef hægt er á svæðinu til að lækka kostnað við akstur. Við getum einnig leiðbeint með sýnatöku í gegnum myndspjall ef svo ber undir sem við síðan látum greina, lesum úr og veitum ráðgjöf í kjölfarið“, segir Hlynur. Er löng bið eftir heimilisskoðun? „Við vorum svo lánsöm að fá inn 3 nýja starfsmenn sem er frábær liðsauki og við það styttist biðin. Við getum komið með tiltölulega stuttum fyrirvara en við forgangsröðum eins og við getum og reynum að bregðast við bráðum tilfellum eins skjótt og auðið er“, segir Hlynur. Af hverju er mikilvægt að láta ástandsskoða heimilið sitt? „Langvinn rakavandamál geta leitt til þess að byggingarefni skemmast, óhóflegur örveruvöxtur myndast og mygla sem getur valdið íbúum heilsubresti byrjað að vaxa í hýbýlum okkar. Algeng eru öndunarfæraeinkenni, ofnæmi, tíðar sýkingar, höfuðverkir, útbrot, taugaverkir, mikil þreyta og svo margt annað. Með forvörnum og viðhaldi á byggingahlutum er hægt að koma í veg fyrir að slíkt gerist. Jafn mikilvægt er að láta skoða húsin okkar eins og bílana til að tryggja öryggi notenda. Það er miklu dýrara að gera við þegar allt er komið í óefni“, segir Hlynur. Hvernig komst þú inn í þennan geira? „Ég er lærður húsasmiðameistari frá Tækniskólanum og hóf störf við húsasmíði árið 2015. Frá árinu 2017 fór ég síðan að færa mig meira inn á verkefni tengdum rakaöryggi og innivist þar sem áhugi minn kviknaði og hef síðan unnið að fjölmörgum ástandsskoðunum fyrirtækja og heimila, eftirfylgni með framkvæmdum og verkefnastjórnun í skólum og stofnunum. Ég er einnig í loftþéttleikaprófunum, slagveðursprófunum, framkvæmdareftirliti o.fl. Ég hef aflað mér víðtækrar reynslu í úttektum og ráðgjöf á byggingum en þetta er orðið helsta áhugamálið mitt í dag fyrir utan golfið og fjölskylduna. Kvöldin fara oft á tíðum í að lesa greinar og skoða hvað er að gerast erlendis í þessum málefnum s.s. greinar um rakaöryggi, heilnæmar byggingar o.fl. Konan situr oft þétt við hliðin á mér og horfir á bíómynd á Netflix á meðan. Einnig sæki ég þau námskeið sem í boði eru til endurmenntunar eins og hjá Iðan fræðslusetri. Síðan er Sylgja, alfræðiorðabók um rakaskemmdir og myglu, á næsta borði“, segir Hlynur og brosir. Hvernig bóka ég skoðun? „Á vefsíðu okkar, verkvist.is er form sem hægt er að fylla út. Einnig er hægt að senda beint póst á skodun@verkvist.is eða hringja í síma 419 1500. Við erum að vinna í að bæta síðuna okkar en það kemur með sumrinu. Það hjálpar mikið að fá sendar myndir og stutta lýsingu á því í hvernig ásigkomulagi húsið er, viðgerðir og annað slíkt“, segir Hlynur. VERKVIST verkfræðistofa sem sérhæfir sig í heilnæmum byggingum, innivist, byggingafræði og loftgæðum. Við komum flest frá rótgrónum stofum og úr námi og teymið er frábært. Við vinnum sem þverfaglegt teymi með rakaöryggi og byggingartæknifræðina að leiðarljósi sem Böðvar Bjarnason, byggingatæknifræðingur er í fararbroddi fyrir ásamt umhverfisþáttum og vottunum þegar við á sem Alma Dagbjört Ívarsdóttir, innivistar- og orkuverkfræðingur stýrir. Við vinnum þétt saman að því að leysa flókin mál og koma með úrbætur enda þaulreyndir fagmenn á sínu sviði innan fyrirtækisins.
- Af hverju leka gluggar fyrr ?
Fróður maður sagði eitt sinn við mig að einungis væru til tvær gerðir af gluggum, þeir sem leka og þeir sem ættu eftir að leka. Í nýbyggingum í dag virðist það fyrsta sem fer úrskeiðis vera gluggarnir. En hvers vegna? Gluggar eru nauðsynlegir í byggingum til að hleypa dagsbirtu inn og tryggja möguleika á að hleypa inn fersku útilofti. Á sama tíma valda gluggar því að veðurhjúpur er rofinn og við gerum gat á útveggina. Forsaga eldri glugga og ísetninga Á árum áður voru gluggar oft á tíðum smíðaðir á litlum ófullkomnum verkstæðum, úti í bílskúr eða í vinnuskúrum á byggingarstað. Gluggarnir voru járnaðir, áfellur negldar utan á og glugginn steyptur í. Sjaldnast fylgdu með nákvæmar leiðbeiningar um hvernig gengið skyldi frá þessum gluggum. Smiðirnir einfaldlega kunnu að setja gluggana í steypumótin. Gluggarnir voru svo glerjaðir á staðnum þar sem hver smiðurinn hafði sinn háttinn á. Ef steypuvinnan var í lagi, steypan náði að flæða nægjanlega vel undir gluggann og ekkert steypuhreiður myndaðist, þá hélt þessi aðferð merkilega vel þrátt fyrir að engin klæðning væri til að verja þéttingar fyrir veðrum og vindum. Auðvitað voru þessir gluggar misjafnir að gæðum en voru þeir almennt verri en nútíma CE-vottaðir gluggar? Regluverkið var einfaldara, allir máttu smíða glugga og setja þá í hús þ.e.a.s. faglærðir einstaklingar og í flestum tilfellum var það þannig. Smiðir smíðuðu gluggana og settu þá í. Þessir gluggar entust í 30-40 ár og jafnvel lengur, allt eftir gæðum gluggana og timbursins sem í gluggunum var og hvernig viðhaldi þeirra var í framhaldi sinnt. Í fyrstu voru flestir þessara glugga glerjaðir með einföldu gleri. Þannig voru þeir kannski í 20-30 ár þar til farið var að tvöfalda glerið. Þá var falsið dýpkað með því að fræsa úr rammanum og skipta um pósta. Viðurinn var oftast í fínu lagi svo engum datt í hug að henda þeim, enda láku þeir ekki. Stundum þurfti að vísu að sponsa í botnstykkið en þessar aðgerðir entust oftast ágætlega. Kröfur í dag Í dag er s.s. öllum heimilt að flytja inn glugga en það er bannað að nota þá nema þeir hafi staðist slagregnspróf upp á 1100 Pa og hafi CE-merkingu. Miðað við þessar auknu kröfur ætti að vera hægt að draga þá ályktun að lekir gluggar heyrðu sögunni til. En svo er alls ekki, heldur þvert á móti virðist sem gluggar leki frekar í dag og mun fyrr en þeir áður gerðu. En hvað veldur? Byggingaraðferðir hafa breyst. Við erum farin að klæða húsin okkar að utanverðu, gluggarnir eru að ýmsum gerðum og efnið í þeim er ýmist timbur, ál eða plast. Gluggaprófílarnir, klæðningar og klæðningarkerfin eru mismunandi og veggirnir sem gluggarnir eru settir í einnig. Sumir vilja meina að gluggaframleiðandi ætti að fyrirskrifa frágang á sínum gluggum og sumir gera það, en þá fyrir þá veggi og byggingarefni sem eru algengust í þeirra nærumhverfi. Það loftslag og sú veggjagerð sem algengust er í nærumhverfi erlendra framleiðanda er sjaldnast eins og sú uppbygging sem við notum hérlendis. Sennilega er um 90% af öllum gluggum sem settir eru í hús á Íslandi framleiddir erlendis. Reynslan hefur sýnt að gluggarnir sjálfir geta lekið og einnig þétting við ísetningu, í verstu tilfellum hvoru tveggja. Hver ber ábyrgð á gluggafrágangi? Augljósasta svarið er að segja að hönnuðurinn á að hanna gluggafráganginn og byggingarmeistarinn að sjá til þess að smiðirnir gangi rétt frá gluggunum eins og teikningar segja til um. Þannig væri ábyrgðarkeðjan skýr, þ.e.a.s. ef að gluggarnir koma CE-vottaðir og með staðfest slagregnspróf upp á 1100 Pa. En er málið svona einfalt ? Nei, íslensk lög banna hönnuðum að fyrirskrifa nákvæmlega hvaða gluggategund nota skal í útboðsgögnum og þar af leiðandi getur hönnuður ekki að fullu teiknað nákvæmt deili af gluggafráganginum. Verktakinn sem velur endanlega hvaða glugga hann kaupir er falið að klára hönnunina, sem svo smiðurinn framkvæmir án nokkurra leiðbeininga. Hvar liggur þá ábyrgðin þegar eitthvað fer úrskeiðis? Í þessu kerfi bendir hver á annan og sennilega situr húseigandinn oftar en ekki uppi með skaðann. Hvað er til ráða? Færi ekki betur á því að eftirláta sama hönnuði að teikna gluggafrágang samhliða því sem hann teiknar klæðningarkerfin og velur önnur byggingarefni? Þannig gæti ábyrgðarkeðjan að minnsta kosti verið skýrari. Það þyrfti að skýra regluverkið eða bæta það og t.d. banna innflutning á gluggum sem ekki eru CE-merktir og hafa ekki staðist nýlegt slagregnspróf. Staðreyndin er sú að stundum fylgja 10-15 ára gamlir pappírar með gluggunum en ekkert ákvæði er í reglugerð um aldur þessara prófana né hvaða gluggar eru prófaðir. En hvernig á svo að þétta glugga? Flest erum við vonandi sammála um að innri þéttingin sé sú mikilvægasta og að hún eigi að vera raka- og loftþétt í báðar áttir. Ytri þéttingin er meira þrætuepli, sumir segja að það eigi að kítta, aðrir nota borða, stundum gufuopna en stundum lokaða. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að fyrirskrifa einhverja eina aðferð eins og gert var í gamla daga, til þess eru efni og byggingaraðferðirnar í dag alltof margar. En ákveðnar meginreglur getum við þó haft að leiðarljósi: Gerum alltaf ráð fyrir að ysta þéttingin geti gefið sig Hugum vel að drenkerfi gluggans og ísetningarinnar Ysta klæðning hússins er ekki vatnsheld Hindrum að vatn komist að burðarvegg Gerum gluggagatið vatnsþétt Slagregnsprófum allar ísetningar Tengjum vatnsvörn gluggans við vatnsvörn veggjarins Það væri til mikils unnið ef við myndum taka á þessum vandamálum sem allra fyrst til þess að koma megi í veg fyrir ótímabært viðhald og leka glugga, öllum til hagsbóta. Greinahöfundur er Böðvar Bjarnason, Byggingameistari og byggingatæknifræðingur og einn af eigendum VERKVISTAR verkfræðistofu, bodvar@verkvist.is, sími: 665 6521
- Námskeið með Reykjavíkurborg - bætt loftgæði og lýðheilsa í skólum
Í maí hélt VERKVIST í samvinnu við Reykjavíkurborg námskeið varðandi efnanotkun, þrif, hreinsun og aðgerðir til að bæta loftgæði í skólum og frístundabyggingum. Umsjónarfólk, húsverðir og starfsfólk skóla og frístundaheimila mættu í höfuðstöðvar Reykjavíkurborgar í Borgartúnið þar sem líflegar og áhugaverðar umræður sköpuðust um loftgæði, heilsu og byggingar. Á fundinum var settur upp loftgæðamælir þar sem þátttakendur gátu fylgst með í rauntíma loftgæðunum í salnum á skjái og í appi á meðan á fundinum stóð. Marktækar breytingar urðu t.a.m. á loftgæðum til hins betra við það eitt að opna glugga sem sýnir hvað loftun er mikilvæg heilsu okkar. Grunnur lagður að ferlum og leiðbeiningum um þrif Helsta ástæða og umfjöllunarefni fundarins var að fara yfir ferla við þrif í skólum og frístundahúsnæðum til þess að tryggja börnum og notendum betri loftgæði. Með því að huga að því hvaða efni eru notuð í okkar nærumhverfi getum við komið í veg fyrir óþarfa ertingu í andrúmsloftinu. Regluleg loftskipti, rykhreinsun og takmörkun á notkun efna innandyra skiptir því höfuðmáli þar sem mörg hreinsiefna eru ertandi fyrir húð, augu og/eða öndunarfæri. Samkvæmt rannsóknum er ungt fólk oft á tíðum einnig viðkvæmara fyrir slíku áreiti. Það er því ljóst að góð loftgæði eru mikilvæg í öllum byggingum til að bæta heilsu og vellíðan og regluleg loftskipti, þá sérstaklega þar sem börn dvelja. Ef heilnæm og mild efni eru notuð til almennra þrifa og sterk og sótthreinsandi efni einungis þegar þörf krefur til hverju sinni, á þeim svæðum sem til þarf, má bæta loftgæðin til muna í byggingum og tryggja betri innivist. Ekki síst þarf að horfa til þeirra skaðlegu umhverfisáhrifa sem sterk, ilmefnablönduð hreinsiefni geta haft á allt lífríkið. Þetta frumkvæði Reykjavíkurborgar að efla lýðheilsu í skólum með því að bæta og huga almennt að loftgæðum er til fyrirmyndar og mun án efa hafa góð áhrif á vellíðan nemenda og starfsfólks í skólum Reykjavíkurborgar, segir Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur, lýðheilsufræðingur og ráðgjafi hjá VERKVIST í heilnæmri innivist. Til þess að hægt sé að innleiða nýja ferla og breytingar að þessu tagi þurfa allir sem að verkefninu koma að fá fræðslu og öðlast sameigilegan skilning á því hversu miklu máli loftgæði skipta fyrir heilsu og vellíðan barna og starfsfólks. Við erum gríðarlega ánægð með góða þátttöku og viðbrögð þátttakenda á málefninu og hlökkum til að móta þetta enn frekar í góðri samvinnu, segir Sylgja Dögg að lokum. Nánari upplýsingar um námskeið: Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, sylgja@verkvist.is og Íris Magnúsdóttir, iris@verkvist.is
- Mikill fengur að fá Arnar Þór Sævarsson til VERKVISTAR
Arnar Þór Sævarsson hefur gengið til liðs við VERKVIST verkfræðistofu og hóf hann störf þann 6. maí sl.. Arnar Þór hefur lokið B.Sc. gráðu í byggingartæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík og sveinsprófi í húsasmíði frá Tækniskólanum. Hann er með 6 ára starfsreynslu sem húsasmiður og hefur sótt fjölmörg námskeið er varða raka og myglu, brunaþéttingar og námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn. Hann stundaði einnig nám við líffræði í HÍ. Arnar Þór hefur víðtæka reynslu en hann starfaði m.a. hjá Eflu þar sem hann var sérfræðingur á sviði innivistar og byggingartækni. Hann hefur komið að fjölmörgum verkefnum tengdum innivist, framkvæmdareftirliti, gerð kostnaðargreininga, verklýsinga og útboðsgagna á sínum ferli. „Það er því mikill fengur að fá Arnar Þór til okkar. Megin áherslur hans hjá VERKVIST verða á heilnæma innivist, byggingatæknifræði, byggingaeðlisfræði, ástandsskoðanir, loftgæði og margt fleira“, segir Böðvar Bjarnason , byggingatæknifræðingur og einn af stofnendum og eigendum VERKVISTAR. Nánari upplýsingar um Arnar Þór Sævarsson Á myndinni má sjá Arnar Þór Sævarsson og Böðvar Bjarnason á sviði innivistar & byggingartæknifræði hjá VERKVIST
- Hver ber ábyrgð þegar rakavarnir og rakaöryggi er ábótavant í byggingum?
“Innivist og loftgæði eru lykilatriði í hönnun, framkvæmd og notkun bygginga. Ekki aðeins fyrir heilsu og vellíðan, heldur einnig til að auka framlegð, hæfni og frammistöðu notenda.”, segir Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur og lýðheilsufræðingur í erindi sínu um Rakaöryggi á Bransadögum Iðu fræðsluseturs sem hófust í dag. Farið var yfir aðferðarfræði sem tryggir og takmarkar rakaskemmdir og rakavandamál í byggingum, allt frá hönnun og framkvæmd að notkun mannvirkja. Hvað gerum við þegar upp koma frávik og hvernig lærum við af mistökum? Sérfræðingar VERKVISTAR í innivist & byggingatækni, þeir Hlynur Júlíusson og Arnar Þór Sævarsson, fóru yfir hvernig við notum slagregnsprófanir til að prófa glugga fyrir íslenskt veðurfar og endanlegan frágang. Endað var á líflegum umræðum um gildi þess að byggja yfir þegar við á, skráningu og rakningu gagna, virði rakavarnarfulltrúa og vottanna. VERKVIST veitir sérfræðiráðgjöf til hönnuða, arkitekta, byggingarverktaka, húseigenda og notenda varðandi innivist, vistvottun, orkunýtingu, loftgæði og rakaástand. Nánari upplýsingar: verkvist@verkvist.is
- Kaffispjall um forvarnir, rakavarnir & vottanir
Í vikunni héldum við erindi á kaffistofu stofnunnar og kynntum þjónustu VERKVISTAR þar sem forvarnir í hönnun bygginga, rakavarnir og vottanir fengu hvað mesta athygli. Alma Dagbjört Ívarsdóttir fór yfir þjónustu Verkvistar í sjálfbærni m.a. Svansvottanir, hermibúnað fyrir orkuútreikninga, lífsferilsgreiningar, endurnotkun byggingaefna o.fl. Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir fjallaði um rakaöryggi, hlutverk rakaöryggisfulltrúa hjá VERKVIST og verkferla til að rekja sig aftur í tímann ef frávik verða. Böðvar Bjarnason kom svo inn á úttektir á rakaástandi, byggingaeðlisfræði, mikilvægi þess að hanna rétt, fylgja því staðfast eftir í öllu byggingaferlinu með góðri verkefnastjórnun og að velja vel þegar kemur að efnisvali. Fulltrúar frá VERKVIST geta komið inn í verkefni af hvaða stærðargráðu sem er með sérfræðiráðgjöf og stutt við öflugt starf sveitarfélaga, stofnanna, verktaka, arkitekta og fyrirtækja er varðar byggingatækni, byggingaeðlisfræði, heilnæma innivist, sjálfbærni, orkunýtingu, kolefnisspor og umhverfisþætti. verkvist@verkvist.is Á myndinni má sjá ört stækkandi hóp sérfræðinga VERKVISTAR.
- Rakaöryggi bygginga - Bransadagar 2024 IÐAN
Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir er líffræðingur, stofnandi og eigandi VERKVISTAR sem veitir sérfræðiráðgjöf til hönnuða, arkitekta, byggingarverktaka, húseigenda og notenda varðandi innivist, vistvottun, orkunýtingu, loftgæði og rakaástand. Hún fjallar um rakaöryggi bygginga sem við hönnun og framkvæmd felur í sér að takmarka skemmdir og afleiðingar raka. Ef rakaástand fer út fyrir öryggismörk raka geta afleiðingar komið fram eins og fúi í timbri eða trjákenndum efnum, örveru- og mygluvöxtur, aukin útgufun frá byggingarefnum og aukin varmaleiðni í einangrandi byggingarefnum. Einnig geta komið fram frostskemmdir, tæring málma, úrfellingar eða hreyfingar á byggingarefnum. Síðast en ekki síst hefur óeðlilegt rakaástand bygginga áhrif á loftgæði. Nánari upplýsingar og skráningu má finna á síðu Iðunnar: Rakaöryggi bygginga | Bransadagar 2024
- Hulda Einarsdóttir til VERKVISTAR
Það er okkur sönn ánægja að tilkynna nýjan starfsmann, Huldu Einarsdóttur, sem hóf starf hjá VERKVIST þann 2. maí. Hulda Einarsdóttir er útskrifuð með B.A í Arkitektúr og M.S í Umhverfis- og auðlindafræði. Hulda er mikill umhverfissinni og stundar einnig doktorsnám þar sem hún vinnur m.a. að verkefninu „Carbon Sink Cities“. Hulda hefur brennandi áhuga á lausnum til að draga úr losun frà byggðu umhverfi. „Við erum virkilega ánægð að fá Huldu í teymið okkar. Hennar megin áherslur hjá VERKVIST verða á umhverfi, sjálfbærni og kolefnissporsgreiningar. Hún smellpassar inn í teymið okkar og kemur með ferskan anda og faglegan bakgrunn“, segir Alma Dagbjört Ívarsdóttir, einn af eigendum VERKVISTAR. Nánari upplýsingar um Huldu
- VERKVIST á Verk og vit 2024
Við í VERKVIST verðum með félögum okkar í ÖRUGG verkfræðistofa á Verk og vit 2024 í Laugardalshöll. Velkomin í básinn til okkar C23 Föstudagur kl 15:00 ÖRUGG verkfræðistofa & VERKVIST Hvernig tengjast öryggis- og heilsufarsmál við niðurrif og rakaskemmdir? Mikilvægi greininga á mögulegum heilsufarsáhættum tengd rakaskemmdum (myglu) við niðurrif, hreinsun og/eða förgun á byggingarefnum. Dæmi um aðferð áhættugreininga ásamt forvarna við að fjarlægja og/eða hreinsa byggingarhluta af rakaskemmdum (myglu). Svansvottun og rakaskemmdir, hvert er hlutverk rakaöryggisfulltrúa? Svansvottun og endurbætur, öryggi við niðurrif og förgun Öruggar endurbætur og nýframkvæmdir Föstudagur kl 11:00 Rakaskimun, rakamælingar og rakamælar. Nigel Burford frá Protimeter með kynningu og námskeið í Laugardalshöll á sýningunni Verk og vit - salur 2. Farið er yfir hvers vegna Protimeter er góður kostur til að greina og finna rakatengd vandamál. Hann mun sýna helstu aðferðir við mælingar og hvernig hægt er að nota Protimeter mæla við rakaskimun og greiningar. www.protimeter.com
- Ráðstefna Betri bygginga og IceIAQ 5. mars 2024
Alma og Sylgja Dögg hjá VERKVIST með erindi á ráðstefnu Betri bygginga og IceIAQ (ISIAQ) varðandi loftgæði, rakaskemmdir, heilsu og sjálfbærni.
- Eru húsin okkar vistvæn og heilnæm? (grein á visir.is 28.02.2024)
Staða byggingarannsókna á Íslandi - ákall eftir svari Öll gerum við þá kröfu að húsnæði sem við dveljumst í valdi okkur ekki heilsutjóni. Þetta hljómar eins og sjálfsagður hlutur en staðreyndin er sú að margir glíma við heilsufarsvandamál sem tengjast húsnæðinu sem þeir búa í eða þurfa að dvelja í vegna náms eða starfs. En hvað veldur? Ýmislegt getur valdið okkur vanlíðan, ýmis byggingarefni og efnasambönd sem eru notuð í byggðu umhverfi geta gefið frá sér efni og agnir í inniloft og skert loftgæði. Slæm loftgæði hafa neikvæð áhrif á heilsu og vellíðan allra en við bregðumst mismunandi við slæmum loftgæðum. Það er afar einstaklingsbundið hvað truflar hvern hverju sinni og eftir hversu langa viðveru einkenni koma fram. Óæskilegur raki í byggingum er samt oftast helsta orsökin fyrir skertum loftgæðum bæði kveikir hann á ýmiss konar örveruvexti í byggingarefnum og þegar þau blotna þá leysast úr læðingi ýmiss konar efnakokteilar sem annars hefðu verið bundnir í efnunum. Eitt af því sem gerist þegar byggingarefni blotna og þá sérstaklega þau sem innihalda lífræn efni er að myglu- og bakteríuvöxtur hefst og niðurbrot fer af stað. Myglunni er oftast kennt um öll heilsuvandamál sem við tengjum við húsnæði okkar. En er það endilega bara mygla sem truflar loftgæði? Margt annað kemur til sem getur haft neikvæð áhrif á loftgæði eins og t.d. loftræsing en fæstar íbúðir á Íslandi eru búnar loftræsingu það er að segja vélrænni loftræsingu sem tryggir loftskipti. Eldra skrifstofuhúsnæði, skólar og aðrar stofnanir eru í sömu stöðu þar sem engin vélræn loftræsing er til staðar í þessum byggingum. Í gegnum tíðina þá höfum við treyst um of á að það dygði að opna glugga af og til, til að lofta út. Regluleg loftskipti koma í veg fyrir að óæskileg efni safnist upp í innilofti og valdi okkur óþægindum eða skaða og því er loftræsing árangursrík sem mótvægi við upphleðslu efna og mögulegar rakaskemmdir innandyra. Af hverju leka hús á Íslandi? Oftast tengjum við leka í húsnæði við glugga eða þök en það eru oftast þeir hjúpfletir hússins þar sem við sjáum fyrst vatns eða rakaskemmdir. Þök eru vissulega sá hluti hússins sem verður fyrir mestum veðuráhrifum en hvað með gluggana ? Gluggar eru jú settir í veggina og í steinsteyptum húsum þéttum við þá við steinsteyptan vegginn. Steypan endist vissulega lengur en gluggarnir og þegar gluggar fara leka þá skiptum við um þá og kennum gömlum gluggum um allan vandann ,setjum í nýjan glugga og kíttum við gömlu góðu steypuna. Án þess að huga að því hvort að steypan sjálf gæti verið vandamálið eða hluti vandans . Staðreyndin er hins vegar sú að í mörgum tilfellum er steypan umhverfis gluggagatið svo illa sprungin að nær ómögulegt er að þétta nýja gluggann við steypuna með hefðbundnum aðferðum. Vandamálin koma ekki í ljós fyrr en einhverjum árum seinna þegar raki hefur seitlað á bakvið einangrun og múr eða létta klæðningu innan á okkar íslenska útvegg. Rakinn hefur þá oft á tíðum fundið sér leið inn undir gólfefni og mygluvöxtur hefur náð sér á strik og íbúar og starfsfólk farið að veikjast og loftgæði að versna eins og fyrir viðgerðir. Lekur steypa? Þegar við erum að vinna í endurbótum á gömlum steinsteyptum húsum þurfum við að hafa í huga að steypan í þessum húsum er framleidd með tiltölulega frumstæðum aðferðum miðað við þær aðferðir og þau efni sem við höfum í dag. Við getum því ekki gengið út frá því með vissu að veðrunarþol steypunnar standist nútímakröfur. Nú kunna einhverjir að segja ,,Hvaða vitleysa er þetta húsið er orðið 80 ára gamalt og hefur þolað öll veður hingað til,,. Vissulega standa þessi hús og mörg þeirra líta ágætlega út og bera aldurinn vel, en hafa verður í huga að flest þessara húsa eru oft illa einangruð og ef við ætlum að uppfylla nútímakröfur um einangrunargildi og huga um leið að betri orkunýtingu þá er það afar varhugavert að gera það innan frá því þá mun frost og önnur veðuráhrif fyrst fara brjóta niður steypuna sem áður var ,,heit“ og frostálag ekki mikið. Því er eina leiðin til að ná fullri einangrun, að gera það utan frá og um leið að leiðrétta eðlisfræðilega uppbyggingu veggjanna og auðvelda alla þéttingu við glugga og útrýma kuldabrúm. Eftir að hafa fjarlægt einangrun af nokkrum útveggjum í eldri byggingum er það alveg ljóst að steypan lekur, ekki aðeins í kringum gluggagöt. Þegar búið er að fjarlægja einangrun innan úr útveggjum má sjá sprungur, steypuhreiður og samskeyti sem ekki eru sýnileg að utanverðu en hafa myndast við lagningu steypunnar. Þessar sprungur leka þrátt fyrir að sjást ekki alltaf utanfrá og er því erfitt að staðsetja leka. Þar að auki má það vera ljóst að með þykkari einangrun þá eykst hættan á rakaþéttingu á milli steypta útveggjarins og einangrunar þar sem daggarpunktur færist. Að lokum er það okkar reynsla eftir að hafa framkvæmt frostþol á þessari eldri steypu að hún hefur ekki sama frostþol og nútíma steypa. Lífsvenjur okkar hafa breyst og húsnæðið okkar er að eldast Í fæstum af þessum eldri byggingum er hugsað fyrir nægum loftskiptum. Einungis er loftskipt með opnanlegum gluggum sem er jú það sem við meðal annars köllum náttúrulega loftræsingu. Já er það ekki bara fínt ? kunna einhverjir að spyrja. Svarið er nei það er ekki fínt. Mælingar sem gerðar hafa verið í t.d. skólastofum sýna að þar sem einungis er treyst á náttúrulega loftræsingu safnast fyrir CO2 í magni sem er langt yfir öllum vellíðunar- og viðmunaðargildum og það sama á við um önnur óæskileg efni sem safnast fyrir í rýmum ef loftskipti eru ekki nægjanleg. Ástæðan er væntanlega sú að við getum ekki haft gluggana nógu mikið opna og ekki nógu lengi til að loftskiptum sé fullnægt. Bæði verður okkur kalt og svo getur bæði rignt og snjóað inn um gluggana og þá lokum við þeim. Loftræsing með vélrænni loftræsingu með varmaskipti er því besta leiðin til að tryggja loftgæði í skólastofum. Þetta á reyndar við um húsnæði almennt fyrir utan að tryggja loftgæði í húsunum og bæta orkunýtingu. Loftræsing dregur einnig úr rakaálagi á byggingar og um leið minnkar líkurnar á mygluvexti og hindrar útbreiðslu eða uppsöfnun á afleiðuefnum og gróum frá rakaskemmdum auk annarra óæskilegra efna í innilofti sem geta haft áhrif á heilsu okkar. Loftskipti í byggingum eykur endingu, getur bætt orkunýtingu og eru því byggingar um leið sjálfbærari og vistvænni fyrir vikið. Stórt eignasafn með íslenskum útvegg Íslendingar hafa nær allt frá því að þeir hófu að steypa útvegg, einangrað hann að innan eða alveg þangað til núna síðustu ár að algengara er að einangra hús að utanverðu. Í viðtali við Ríkharð Kristjánsson verkfræðing kom fram að Íslendingar ættu að hætta að borða lopapeysuna, heldur frekar setja hana utan um sig sem hefur eflaust hjálpað við þessa þróun. Staðreyndin er því sú að við eigum mikið af byggingum með þessari uppbyggingu á útvegg sem eru að komast á þann aldur að þurfa viðhald og endurbætur. En hver er besta aðferðin? Hvernig tryggjum við endingu þessara húsa til framtíðar eftir viðgerðir? Við þurfum hlutlausan hóp fagaðila sem kannar það fyrir okkur hvaða aðferð reynist best bæði með endingu, vistvæni og heilnæmi í huga. Við þurfum rannsóknir á því hvaða útfærsla virkar hérlendis og hvaða útfærsla er óheppileg. Er eðlilegt að einkaaðilar, ríki og sveitarfélög séu í eigin rannsóknum og framkvæmi útfærslur sem hafa ekki verið sannreyndar. Hvernig tryggjum við að sú þekking sem skapast við slíkar framkvæmdir skili sér áfram til markaðarins eða menntastofnana? Erum við sátt við að íslensk hús séu í raun prófuð út á markaði, aðferð valin sem enginn hefur í raun lagst yfir og sannreynt að geti virkað við íslenskar aðstæður. Áður en það kemur í ljós að aðferðin virkar ekki vel hafa kannski heilu hverfin risið eða farið í gegnum viðhaldsaðgerðir. Tilraunir á kostnað hvers? Hver er staðan á íslenskum byggingarrannsóknum? Samfelldum grunnrannsóknum? ASKUR er sjóður til nýsköpunar og framfara, hvatning til að þróa og skoða nýjar lausnir. Verkefnin þar endurspegla áhugasvið umsækjanda. Frábær verkefni og spennandi. En fáum finnst spennandi að prófa áraun íslenskra útveggja, fylgjast með nýjum efnum á markaði og hvernig þau reynast eða fylgjast með þróun nýrra aðferða við gluggaísetningar. Það hefur sýnt sig og því þurfum við að tryggja slíkar rannsóknir til hliðar við ASK. Við getum ekki verið sátt við að stærsta fjárfesting okkar, heimili okkar, séu í einhverjum tilfellum notuð í tilraunastarfsemi. Að því sögðu má taka það fram að byggingariðnaðurinn hér á landi hefur tekið stórt stökk í átt að auknum gæðum. stundum vinnur þó hver arkitekt, hönnuður eða verktaki eftir sínu höfði og miðlun reynslu og þekkingar er ekki fylgt eftir eða haldið utan um. Við óskum því eftir svörum frá yfirvöldum, hver er stefnan og hver á að brúa bilið sem myndaðist þegar Rannsóknarstofa byggingariðnaðarins var lögð niður í skjóli heimsfaraldurs? Höfundar eru meðlimir í fagráði Betri bygginga. Böðvar Bjarnason er byggingartæknifræðingur hjá VERKVIST og Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir líffræðingur hjá VERKVIST. Málþing Betri bygginga fer fram í HR á mánudaginn 4. mars.
















