top of page

Leitarniðurstöður

36 results found with an empty search

  • VERKVIST @Healthy buildings 2025

    Við hjá VERKVIST erum stolt af því að hafa tekið virkan þátt í alþjóðlegu ráðstefnunni Healthy Buildings 2025 Europe , sem fram fór 7.–11. júní 2025 í Hörpu og Háskólanum í Reykjavík. Nær 400 þátttakendur frá 40 löndum tóku þátt í faglegu samtali um heilnæma og sjálfbæra byggð. Einn af eigendum VERKVISTAR, Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, var ráðstefnustjóri og leiddi undirbúning og framkvæmd. Öll starfssemi okkar lagði sitt af mörkum – með þekkingu, skipulagi og eldmóði – samhliða daglegum verkefnum. Vincent E. Merida sérfræðingur VERKVISTAR sat í vísindanefndinni ásamt Ólafi H. Wallevik prófessor í Háskólanum í Reykjavík og fleiri aðilum. Að taka þátt í að halda ráðstefnuna var ekki aðeins heiður heldur skýr birtingarmynd af metnaði okkar hjá VERKVIST: við viljum byggja brú milli rannsókna og raunveruleika, og stuðla að því að ákvarðanir um byggingar og manngert umhverfi byggist á bestu þekkingu sem völ er á hverju sinni. Okkar sýn er að heilnæm innivist, loftgæði og vistvæn hönnun sem styður heilsu eigi að vera grunnstoðir í allri þróun bygginga til framtíðar. Ráðstefnan er á vegum ISIAQ og eingöngu flutt þar erindi sem standast ritrýni og faglegar kröfur. Fjallað var m.a. um loftslagsbreytingar, dagsbirtu, hljóðvist, varmavist, raka og loftgæði – og hvernig þessi atriði tengjast heilsu og líðan. IceIAQ íslandsdeild ISIAQ , sem Sylgja Dögg, Heiða Mjöll og Alma Dagbjört sitja í stjórn fyrir, stóð að umsókn Íslands um að halda ráðstefnuna – sem setti Ísland á kortið í alþjóðlegri umræðu um innivist og sjálfbærni. Þakkir Við þökkum öllum þeim sem lögðu hönd á plóg og styrktu viðburðinn – sérstaklega starfsfólki og nemendum Háskólans í Reykjavík, tækniaðstoðarteyminu, tímavörðum, vísindanefndinni, samstarfsfólki frá Lotu verkfræðistofu, Umhverfisstofnun (UOS), Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), Grænni byggð, ISIAQ samfélaginu, og öðrum styrktaraðilum. Við höfum þá trú að faglegt samtal og miðlun þekkingar hafi áhrif á framtíð hins byggða umhverfis hérlendis og erlendis. Byggjum til framtíðar með innivist, sjálfbærni og gæði að leiðarljósi Í framhaldi af alþjóðlegu ráðstefnunni var íslenskt málþing með samantekt af ráðstefnu og faglegum erindum um hvernig við byggjum til framtíðar á Íslandi með innivist, sjálfbærni endingu og gæði í forgrunni. Hér má nálgast íslenska málþingið.

  • Umhverfisyfirlýsingar (EPD blöð) fyrir lykilvörur Límtré Vírnets

    VERKVIST hefur unnið að gerð EPD blaða fyrir yleiningar og límtrésbita Límtré Vírnets – mikilvægur áfangi fyrir sjálfbæra mannvirkjagerð á Íslandi. Í ljósi væntanlegra breytinga á byggingareglugerð þar sem krafist verður lífsferilsgreininga (LCA greining) fyrir byggingar hefur VERKVIST unnið náið með Límtré Vírnet að þróun umhverfisyfirlýsinga (EPD – Environmental Product Declaration) fyrir tvær af lykilvörum fyrirtækisins: Yleiningar og Límtrésbita (GLT). VERKVIST heimsækir Límtré Vírnet Hvað er EPD blað? Umhverfisyfirlýsing vöru (EPD blað) segir til um kolefnisspor vörunnar sem og önnur umhverfisáhrif og er lykilþáttur til að auðvelda gerð lífsferilsgreininga bygginga. Umhverfisyfirlýsing vöru (EPD) er staðlað skjal, staðfest af óháðum þriðja aðila, sem gefur upp umhverfisáhrif vöru yfir allan lífsferil hennar. EPD gegnir lykilhlutverki við lífsferilsgreiningu bygginga og samanburð á umhverfisáhrifum byggingarefna. Skjölin hafa verið sannreynd af óháðum þriðja aðila og eru aðgengileg á vef EPD Norway. Auk þess verða þau fljótlega fáanleg í helstu gagnagrunnum sem tengjast lífsferilsgreiningum fyrir byggingar, eins og t.d. One Click LCA, sem mun auðvelda gerð LCA greininga fyrir íslensk mannvirki. EPD blað Breytingar 1.se ptember 2025 “Frá og með 1. september 2025 verður skylt að skila inn lífsferilsgreiningu bæði við umsókn um byggingarleyfi og við lokaúttekt fyrir byggingar í umfangsflokki 2 og 3.” -HMS Heildstæð greining á vöruframboði VERKVIST vann einnig heildstæða greiningu á vöruframboði Límtré Vírnets með það að markmiði að uppfylla kröfur helstu umhverfisvottunarkerfa – þar á meðal BREEAM og Svansvottunar. Lögð var áhersla á lykilvörur og farið yfir upprunavottorð, efnisinnihald og skráningu í viðurkennda efnisgrunna Svansins (SDCP). Niðurstöðurnar leiddu af sér skýrar og hagnýtar aðgerðir sem einfalda innleiðingu varanna í vottaðar framkvæmdir og styrkja samkeppnisstöðu þeirra á sviði sjálfbærrar mannvirkjagerðar. Með því er Límtré enn betur í stakk búið til að mæta kröfum um sjálfbæra mannvirkjagerð og taka þátt í verkefnum sem stefna að umhverfisvottunum. Framtíðarsýn og áframhaldandi þróun Með gerð EPD blaða fyrir sínar lykilvörur gerir Límtré Vírnet hagsmunaaðilum kleift að taka upplýstar ákvarðanir og undirstrikar jafnframt skýra og markvissa framtíðarsýn fyrirtækisins í umhverfismálum. Við hjá VERKVIST erum stolt af samstarfinu og höldum ótrauð áfram í samvinnu við Límtré Vírnet að gerð fleiri EPD blaða – meðal annars fyrir ál- og stálklæðningar þeirra. Grein Límtré Vírnets: Í haust breytast leikreglur á byggingamarkaði. Límtré Vírnet er tilbúið. - Límtré Vírnet Vantar þig EPD blað fyrir vöruna þína? Við höfum þekkinguna og reynsluna sem þarf til í allt ferlið. Hafðu samband við VERKVIST og fáðu ráðgjöf Alma Dagbjört Ívarsdóttir alma@verkvist.is Vincent Elijiah Merida vincent@verkvist.is

  • Gallar og rakaskemmdir í nýbyggingum: Tími til kominn að bregðast við.

    Sylgja Dögg frá VERKVIST tók þátt í fundi á vegum HMS – Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar – undir yfirskriftinni Tími til kominn að bregðast við . Þar kom saman fagfólk, stjórnvöld og hagaðilar í byggingargeira num og fjallað um þann mikla vanda sem blasir við vegna byggingargalla hér á landi og kynntur nýr Vegvísir HMS um breytt byggingareftirlit. Frá málþingi HMS - Tími til að bregðast við Þurfum breytingar á núverandi kerfi Vegvísir HMS leggur til: áhættumiðað ytra eftirliti óháðra skoðunarstofa afnám byggingarstjórakerfis lögbundna byggingargallatryggingu í framhaldi Markmiðið er að auka skilvirkni, draga úr kostnaði til lengri tíma og tryggja skýrari ábyrgð fagaðila – en um leið að efla neytendavernd og fagmennsku í byggingariðnaði og umbuna þeim sem gera vel. Við hjá VERKVIST fögnum því að áform um skref til að bæta gæði mannvirkja á Íslandi séu í farvatninu. BETRA EFTIRLIT – SKÝR ÁBYRGÐ – FAGMENNSKA Í FYRIRRÚMI Með vegvísinum að breyttu byggingareftirliti er lagður grunnur að kerfisbreytingum sem geta haft áhrif – ekki aðeins á neytendavernd heldur einnig á starfsumhverfi hönnuða, iðnmeistara og framkvæmdaaðila. Næst á dagskrá er útfærsla  Nú tekur við mikilvægt tímabil þar sem verkefnið er að móta nýtt eftirlitskerfi með aðkomu hagðaðila. Ávinningur fyrir fagfólk og framtíðina Það að starfa í umhverfi þar sem ábyrgð er skýr og eftirlit gagnsætt og faglegt, skapar betri aðstæður fyrir alla sem koma að mannvirkjagerð: Viðurkenning fyrir vönduð vinnubrögð Skýrari ábyrgð Aukið traust milli fagstétta, verkkaupa og notenda Heilbrigðara starfsumhverfi og betri markað Hér má nálgast vegvísir HMS um breytt byggingareftirlit , sem ætlað er að efla gæði og ábyrgð í framkvæmdum. Vegvísir að breyttu byggingareftirliti - HMS Framlag VERKVISTAR á málþinginu Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir , lýðheilsu- og líffræðingur og einn af eigendum VERKVISTAR, flutti erindi um rakaskemmdir í nýlegu húsnæði  og dró fram mikilvægi þess að beina sjónum að heilnæmu byggingarumhverfi í lýðheilsulegu tilliti og ábyrgð aðila í ferlinu. Erindið fjallaði meðal annars um: Hvernig rakaskemmdir birtast og algengustu orsakir Þörfina fyrir skýra ábyrgðarkeðju og eftirfylgni Sylgja lagði áherslu á mikilvægi samstarfs og lausnamiðaðrar nálgunar til að tryggja öryggi, heilbrigði og langtíma endingu mannvirkja. Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, innivist & byggingar - VERKVIST Dagskrá málþingsins Opnun fundar Hermann Jónasson , forstjóri HMS Af hverju breytt byggingareftirlit? Þórunn Sigurðardóttir , framkvæmdastjóri mannvirkja- og sjálfbærnisviðs, HMS Rakaskemmdir í nýlegu húsnæði Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir , eigandi Verkvistar   Pallborðsumræður um byggingagalla í nýbyggingum Þorgils Sigvaldason – húseigandi og reynslusaga Sigríður Ósk Bjarnadóttir – Hornsteinn Þórunn Sigurðardóttir – HMS Sigmundur Grétar Hermannsson – Fagmat Stjórnandi : Þórhallur Gunnarsson Pallborð & umræður - HMS málþing 12. maí 2025 Horfa á málþingið og lesa meira: 📺 Upptaka af málþinginu má finna á vef HMS: 👉 Tími til kominn að bregðast við – húsnæðis- og mannvirkjastofnun   📰 Fjallað var um málþingið á Vísir.is : 👉 Lesa frétt á Vísir

  • Tímabært að endurskoða leikreglurnar á fasteignamarkaði

    Í nýrri grein á Vísi fjallar Hlynur Júlíusson , hjá VERKVIST, um mikilvægi þess að endurskoða leikreglurnar í fasteignaviðskiptum. Hlynur hefur sinnt ástandsskoðunum fasteigna, heimilisskoðunum , gallagreiningum og ráðgjöf vegna endurbóta og viðhalds fasteigna um árabil en hann starfaði áður sem húsasmiður við lagfæringar á rakaskemmdum húsnæðum. Í greininni er bent á ákveðið mynstur í beiðnum sem berast um skoðanir á fasteignum en skortur á skýrum ramma og verkferlum virðist vera ábótavant. Kaupendur sitja oft eftir með sárt ennið þar sem gallar hafa komið í ljós eftir afhendingu, afsal eða jafnvel eftir að hafa orðið fyrir heilsubresti við dvöl í fasteigninni. Lesa má greinina í heild sinni á Vísi til að sjá hvað við getum gert til að breyta þessu:👉 Fasteignaviðskipti: Tímabært að endurskoða leikreglurnar Við hjá VERKVIST trúum því að með fagmennsku, samræmdu verklagi og opnu samtali sé hægt að skapa traustari og sanngjarnari markað – þar sem hagsmunir allra eru teknir alvarlega. Nánar um heimilisskoðanir Beiðni um skoðun er send á skodun@verkvist.is Hlynur Júlíusson hjá VERKVIST - innivist & byggingar

  • Forvitnin í æsku skilar sér í framtíðarlausnum fyrir íslenska byggingariðnaðinn

    Allt frá barnæsku hefur byggingartæknifræðingurinn Ævar Kærnested, viljað kafa dýpra og vita „af hverju?“ Sú hugsun hefur nú skilað sér í raunhæfum lausnum fyrir byggingariðnaðinn en Ævar útskrifaðist sem byggingartæknifræðingur og húsasmíðameistari frá Háskóla Reykjavíkur í vor og gerði lokaverkefni um varðveitingu íslenskra útveggja. Úr verkefninu spruttu raunhæfar og framtíðarmiðaðar lausnir fyrir byggingariðnaðinn sem hafa nú þegar verið nýttar við fjölbreyttar greiningar- og þróunarverkefni hjá VERKVIST. Ævar Kærnested, byggingartæknifræðingur frá HR og húsasmíðameistari Það er okkur því hjá VERKVIST sönn ánægja að tilkynna að Ævar Kærnested  hefur nú hafið full störf hjá VERKVIST. Ævar hefur starfað hjá okkur samhliða námi síðan í maí 2024 og lagt sitt af mörkum í fjölbreyttum greiningar- og þróunarverkefnum sem tengjast byggingatækni, heilnæmri innivist, loftgæðum og umhverfismálum. Ævar sem einnig er húsasmíðameistari á að baki sjö ára reynslu í byggingariðnaði, bæði við framkvæmd, eftirlit, úttektir og ástandsgreiningar. Hann hefur skarað fram úr í námi, var dúx í menntaskóla og verkefni hans endurspegla dýpt, fagmennsku og áhuga á sviði umhverfis og bygginga.   Rótgróinn áhugi og dýpt í hugsun Áhugi Ævars á eðli hluta og hvernig þeir virka kviknaði snemma – sem barn spyrjandi stöðugt „af hverju?“. Sú þörf fyrir að skilja málin og ferla í kjölinn, fremur en að sætta sig við yfirborðssvör, hefur fylgt honum allt frá því hann byrjaði í húsasmíði og áfram inn í háskólanám í byggingartæknifræði.   Þessi forvitni og djúpa hugsun skín í gegn í lokaverkefninu hans, þar sem hann leitar ekki eingöngu svara við því  hvað  veldur skemmdum á útveggjum, heldur hvers vegna  – og hvernig við getum hannað betri lausnir með tilliti til byggingareðlisfræði og raunverulegra íslenskra aðstæðna.    „Það hefur verið ómetanlegt að vinna að fjölbreyttum verkefnum og með þverfaglegu teymi hjá VERKVIST á meðan á náminu stóð – það gaf mér bæði dýpri skilning og innsýn sem ég gat fléttað beint inn í verkefnið mitt. Ég er spenntur fyrir því að halda áfram að kafa ofan í þessi viðfangsefni og nýta þekkinguna í þágu raunverulegra lausna,“ segir Ævar.   Lokaverkefnið: Varðveiting íslenskra útveggja Í verkefninu Varðveiting íslenskra útveggja  rannsakaði Ævar byggingareðlisfræðileg vandamál sem fylgja hinum svokallaða „íslenska útvegg“, byggingaraðferð sem einkennist af steinsteyptum veggjum sem eru einangraðir að innan. Slíkir veggir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir steypuskemmdum vegna þess að steypan er óvarin frá veðri og vindum.   Markmið verkefnisins var að rannsaka þá grotnunarferla sem íslenski útveggurinn verður fyrir og síðan stilla upp og bera saman mismunandi varðveitingaraðferðir með aðstoð hita og rakaflæði greiningar forritinu WUFI® Pro.    Niðurstöður og helstu lærdómar Ævar greinir að íslenski útvegurinn hafi almennt mjög hátt rakastig – oft yfir hættumörkum (>85% RH) – og að veðurálag spili þar stærsta hlutverkið.   Helstu niðurstöður sýna meðal annars: Loftræst klæðning að utan  án viðbótar einangrunar dugar til að vatnsverja steypu en útþornun steypunnar verður enn afskaplega hæg útaf hitastigi hennar Viðbótareinangrun að utan  – jafnvel allt niður í 25 mm – getur skilað miklum árangri við að stuðla að útþornun steypunnar. Múreinangrunarkerfi  reyndist áhrifarík lausn í byggingum þar sem ekki er heimilt að breyta útliti. Lykilþáttur í árangri er hækkun á hitastigi steypunnar , sem stuðlar að útþornun og dregur úr skemmdavöldum. „Ævar hefur skilað mjög vönduðu og hagnýtu verkefni sem endurspeglar frábæra innsýn í byggingareðlisfræði og raunhæfar lausnir fyrir íslenskar aðstæður. Hann bætir við teymið okkar dýrmætri sérþekkingu og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs,“ segir leiðbeinandi Ævars í verkefninu, Böðvar Bjarnarsson sem er byggingatækni- og byggingaeðlisfræðingur og einn af eigendum VERKVISTAR.   Böðvar Bjarnason og Ævar Kærnested hjá VERKVIST Hugsar til framtíðar eldri bygginga Með þessu verkefni leggur Ævar til mikilvægt framlag til umræðunnar um viðhald og verndun eldri bygginga á Íslandi – og sýnir skýrt hvernig samtvinna má fræði, hugbúnað og hagnýta reynslu í þágu sjálfbærrar byggingarmenningar. Það er sérstaklega ánægjulegt að verkefnið tengist beint verkefnum sem Ævar hefur sinnt hjá Verkvist og nýtist þannig strax í hagnýtri notkun.   Við óskum Ævari innilega til hamingju með áfangann og hlökkum til áframhaldandi samstarfs. Framtíð íslenskrar byggingartækni er björt með fagfólk eins og Ævar í sínu teymi.

  • Fjarvinna og loftgæði, samanburður á loftgæðum á milli heimila og vinnustaða.

    Rannsókn Árnu Benediktsdóttur, nýútskrifaðs byggingartæknifræðings frá HR og sérfræðings í innivist og loftgæðum hjá VERKVIST gefur til kynna mun á loftgæðum milli hefðbundinna skrifstofa og heimavinnuumhverfis. Loftgæðin voru almennt breytilegri og óheilnæmari á heimaskrifstofum. f Árna Benediktsdóttir, byggingartæknifræðingur Árna Benediktsdóttir er nýútskrifuð með BS-próf í byggingartæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur verið í hlutastarfi hjá VERKVIST frá því að fyrirtækið var fyrst stofnað en hún var fyrsti starfsmaðurinn inn í fyrirtækið eftir að það var stofnað í mars 2024. Árna hefur nú hafið fullt starf hjá VERKVIST.   Lokaverkefni Árnu „ Samanburður á loftgæðum á vinnustöðum og í heimahúsum “, hlaut tilnefningu sem eitt af fjórum bestu lokaverkefnum annarinnar í tæknifræði við HR. Leiðbeinendur hennar voru þau Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir , líffræðingur, lýðheilsufræðingur og eigandi VERKVISTAR og Dr. Ólaf­ur H. Wal­levik hjá Há­skóla Reykja­vík­ur.   Mælingar voru gerðar á helstu þáttum sem hafa áhrif á inniloft, m.a. styrk koltvísýrings (CO₂), magni rokgjarnra lífrænna efnasambanda (VOC e. volatile organic compounds), hitastigi og hitasveiflum, raka sem og magni svifryks í andrúmsloftinu. Niðurstöður verkefnisins sýndu fram á mun á loftgæðum. Á hefðbundnum skrifstofum var koltvísýringur yfirleitt innan viðmiðunarmarka, á meðan hann mældist oft yfir mörkum í heimahúsum vegna takmarkaðrar loftræstingar. Einnig voru gildi rokgjarnra lífrænna efnasambanda (VOC) að jafnaði lægri á vinnustöðum sem búa yfir öflugri loftræstingu, en hærri í heimahúsum. Hitastig var yfirleitt stöðugra og jafnara á skrifstofum en í heimaskrifstofum, og magn svifryks reyndist oft meira í heimahúsum.  „Heimavinnuumhverfið felur í sér fleiri áskoranir hvað varðar loftgæði en hefðbundnir vinnustaðir sem treysta á vélræna loftræstingu“ segir Árna og leggur áherslu á ályktun rannsóknarinnar. „Því er brýnt að auka vitund um loftgæði heima fyrir og grípa til aðgerða til að viðhalda heilnæmu lofti, til dæmis með reglulegri loftun og réttri loftræstingu.“ Áhugasviðið liggur á sviði loftgæða og innivistar   Hjá VERKVIST mun Árna nýta sína sérþekkingu á þessu sviði. Hún mun einbeita sér að málefnum sem varða loftgæði og heilnæma innivist. Árna hefur öðlast umtalsverða reynslu sl. ár af störfum sínum samhliða námi bæði hjá VERKVIST og áður hjá Eflu, Colas við gæðaeftirlit og HR í námi við byggingartækni. Hún var einnig aðstoðarkennari í jarðtækni hjá HR árið 2022-2023.   „Ég er mjög stolt af því hvernig hún vann verkefnið og rannsóknina en þekkingin mun nýtast okkur áfram til frekari rannsókna og við ráðgjöf. Með ráðningu Árnu í fullt starf eflum við enn frekar sérfræðiþekkingu VERKVISTAR á sviði loftgæða og innivistar. Við fögnum útskrift hennar“, segir Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, einn af eigendum VERKVISTAR. Lokaverkefnið og rannsóknina í heild sinni má finna á vef Skemmunnar

  • VERKVIST leiðir Svansvottun á Orkureitnum

    Glæsileg ný 436 íbúða byggð rís nú á Orkureitnum við Suðurlandsbraut í Reykjavík. Byggðin er í göngufæri við Laugardalinn, Skeifuna, Glæsibæ og Múlana. Íbúðirnar eru með loftræsingu með varmaendurvinnslu sem stuðla að orkusparnaði og betri loftgæðum. VERKVIST leiðir Svansvottun á Orkureitnum. Vottunarferlið  tekur mið af nýjasta staðli Svansins, sem er fjórða útgáfa .   Eiginleikar og áherslur í Svansvottun á Orkureitnum   Dagsbirtuútreikningar : Lausnir sem tryggja nægilegt magn dagsbirtu.   stækka og færa til glugga til að hámarka náttúrulega ljósvist. Þessar breytingar tryggja ekki aðeins fullnægjandi dagsbirtu sem eykur vellíðan íbúa heldur stuðla þær einnig að orkusparnaði. Loftgæði: Allar íbúðir á Orkureitnum eru búnar loftræsingu með varmaendurvinnslu. Efnisval tekur mið af kröfum Svansins varðandi útgufun efna og efnainnihald. Þessir þættir tryggja betri innivist og loftgæði. Rakaöryggi:  Sérfræðingar VERKVISTAR leggja áherslu á rakaöryggiseftirlit. Kröfur Svansvottunar í rakaforvörnum tryggja að fylgst er með uppbyggingu og framkvæmd samkvæmt rakaöryggisáætlun verkefnisins. Efnisval: Í Svansvottun er lögð áhersla á val á umhverfisvænum  efnum sem innihalda ekki eitruð eða skaðleg efni fyrir vistkerfi eða inniloft. Orkusparnaður : Í hönnunarferlinu er lögð áhersla á orkusparandi aðgerðir og lausnir sem skila sér í langtíma orkusparnaði sem er umfram það sem reglugerð kveður á um. Betri einangrun, vandaðri gluggar og lýsingarhönnun eru dæmi um orkusparandi aðgerðir. Loftræsikerfi með varmaendurvinnslu: Til að bæta enn frekar loftgæði innan íbúða og spara um leið bæði orku og halda niðri kostnaði við upphitun, er ferskt og kalt loft dregið inn í bygginguna og hitað með lofti sem skilað er til baka. Þessi varmaskipti leiða af sér lægri upphitunarkostnað. Líffræðilegur fjölbreytileiki:  Líffræðilegur fjölbreytileiki  gegnir lykilhlutverki í að viðhalda virkni og jafnvægi vistkerfa. Hann styður við vistkerfi og ferla, eins og frjóvgun plantna, vatnshreinsun, jarðvegsmyndun, vatnsmiðlun og kolefnisbindingu, auk þess að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og styðja við sjálfbærni. Ávinningur af Svansvottun fyrir íbúðareigendur:   Markmiðið með Svansvottun á Orkureitnum er að efla sjálfbærni við hönnun og skipulag og þannig draga úr umhverfisáhrifum og minnka þörf á viðhaldi.   Þeir sem eiga eða búa í Svansvottaðri íbúð mega búast við því að loftgæðin séu betri, rakaöryggið sé meira og efnisvalið sé heilnæmt og vistvænt. Eftirlit er haft með rakaöryggi í framkvæmd, raki mældur í byggingarefnum á byggingartíma og áður en gólfefni eru lögð. Gluggar eru prófaðir fyrir slagregni og hvernig þeir standast veðurálag. Einnig hefur farið fram greining á orkunýtingu og dagsbirtu. Loftskipti eru tryggð með loftræsikerfi fyrir hverja íbúð og varmaendurvinnsla tryggir orkusparnað.   VERKVIST hefur viðamikla reynslu af því að aðstoða og veita ráðgjöf vegna Svansvottunar til m.a. hönnuða, verktaka, stofnanna og sveitarfélaga. VERKVIST hefur komið að Svansvottun á öllum stigum í byggingaferlinu, allt frá gerð útboðsgagna og kostnaðaráætlana, aðstoða hönnuði í hönnunaferlinu ástamt ráðgjöf, eftirliti og aðstoð á framkvæmdatíma. Einnig veitum við ráðgjöf og þjónustu við eftirfarandi: - Rakaöryggisráðgjöf og eftirliti - Lífsferilsgreiningum LCA - Orkuútreikningum - Dagsbirtugreiningum - Ráðgjöf við efnisval -Slagregnsprófun -Loftþéttleikamælingar -Rakamælingar -Byggingareðlisfræðilega rýni Við í VERKVIST teljum að sjálfbærni og heilnæmi þurfi að vera samverkandi við hönnun og framkvæmd í nýbyggingum. Mikilvægt er að byggingar endist, að þær hafi sem minnst áhrif á umhverfið auk þess að stuðla að heilsu og vellíðan íbúa. Svansvottun er góð leið til þess að tryggja að svo sé.

  • Er gaman í vinnunni?

    Miklu máli skiptir að líða vel í vinnunni og er það ekki sjálfgefið. Við starfsfólk VERKVISTAR  teljum okkur svo sannarlega heppin hvert með annað. Við deilum ástríðu fyrir umhverfinu og því sem við vinnum við og ekki skemmir fyrir hvað starfsmannafélagið FÉLAGSvist er öflugt. Frá því að fyrirtækið var stofnað þann 1. mars sl. er óhætt að segja að margt hafi gerst. Við erum orðin 13 talsins, erum flutt í frábæra aðstöðu á Hallgerðargötu 13 og höfum átt í samstarfi við frábæra samstarfsfélaga og viðskiptavini. Þjónustuleiðum okkar fjölgar með hverju fagfólkinu sem við fáum inn í teymið okkar og félagslífið eflist. Verkefnin eru af ólíkum toga en þau tengjast öll heilnæmi bygginga: innivist, vistvottun, byggingartæknifræði, loftgæðum, sjálfbærni, rakaöryggi og forvörnum. Samhliða því að vinna saman að krefjandi verkefnum höfum við haft það að leiðarljósi að vera þétt teymi sem hjálpast að. Þannig náum við oft að leysa flókin mál saman. Hjá okkur skipar fjölskyldan stóran sess og við elskum að gleðjast saman. Margt skemmtilegt hefur verið gert á þó þessum stutta tíma og má þá m.a. nefna: pílu, pool, sýningar, innflutningsboð, jólahlaðborð, bingó, pubquiz, jólaföndur, Áramótaskop og svo margt annað. Hér er ekki hægt að sleppa því að tala um MATARvistina en við höfum skipst á að velja og panta saman mat í hádeginu á föstudögum og fara yfir málin. Svo svarið við spurningunni hér að ofan er risa stórt JÁ… það eru forréttindi að vinna með góðu fólki. Hjálpsemi, góðlátlegt grín eða gott klapp á bakið getur breytt deginum. Starfsfólkið þakkar fyrir árið, stjórnendum, samstarfsfélögum og viðskiptavinum. Við hlökkum til ársins 2025 og nýrra ævintýra. F. H starfsmannafélags VERKVISTAR, FÉLAGSvist

  • Tímamót - 1. árs í dag

    Í dag, 1. mars fögnum við hjá VERKVIST tímamótum– 1 árs afmæli fyrirtækisins! Árið hefur verið ótrúlegt, fullt af lærdómi, nýjum tækifærum og krefjandi en jafnframt skemmtilegum verkefnum. Við viljum nýta tækifærið og þakka öllum sem hafa stutt okkur á þessari vegferð. Við brugðum okkur í óvissuferð og fögnuðum áfanganum. Um VERKVIST VERKVIST var stofnað með það að markmiði að veita faglega og áreiðanlega þjónustu á sviði bygginga, ráðgjafar, innivistar, vottanna, loftgæðamælinga og í raun allt sem tengist heilnæmum byggingum og heilsu. Teymið - samheldinn hópur  Við höfum lagt okkur fram við að byggja upp sterk tengsl við viðskiptavini okkar og bjóða upp á fjölbreyttar lausnir. Á þessu fyrsta ári höfum við veitt fjölbreytta þjónustu sem hefur hjálpað fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum að halda byggingum sínum heilnæmum og huga að umhverfisþáttum. Við leggjum áherslu á þverfaglega nálgun, skilvirkni og persónulega þjónustu. Við vinnum þétt saman að lausnum til að tryggja faglega þjónustu. Mannauður VERKVISTAR Hvað er framundan? Við höfum stór markmið fyrir næsta ár. Við erum búin að ráða inn fjórtánda starfsmanninn, Einar Örn Þorvaldsson og kynnum við hann nánar til leiks á næstu dögum. Við stefnum á að auka þjónustuframboð okkar, þróa nýjar lausnir og efla samstarf við viðskiptavini enn frekar. Við hlökkum til að halda áfram að vaxa og þróast með ykkur. Að lokum viljum við þakka öllum viðskiptavinum, samstarfsaðilum og teyminu okkar fyrir traustið og stuðninginn. Án ykkar væri þetta ekki mögulegt! Takk fyrir fyrsta árið – hlökkum til næstu ára! Starfsfólk VERKVISTAR

  • Hornsteinn í heimsókn til VERKVISTAR

    Í síðustu viku fengum við til okkar sérfræðinga frá Hornsteini þar sem Sigríður Ósk Bjarnadóttir eða Sirrý, framkvæmdastjóri umhverfis- og gæðamála, hélt kynningu fyrir starfsfólk VERKVISTAR um starfsemi og sérþekkingu fyrirtækisins. Með henni í för voru samstarfskonur hennar þær Anna Bára og Sóley. Hornsteinn er móðurfélag þriggja dótturfélaga: BM Vallár, Sementsverksmiðjunnar og Björgunar, sem öll eiga sér rótgróna sögu á Íslandi. Hornsteinn og VERKVIST eiga það sameiginlegt að byggja starfsemi sína á heilindum í íslenskum byggingariðnaði, þar sem gæðakröfur til endingar byggingarefna og þjónustuvitund skipta höfuðmáli. Umhverfismál og sjálfbær nýting auðlinda eru okkur hjartans mál, og við leitum stöðugt leiða til að hafa jákvæðari áhrif á umhverfið, bæði til skemmri og lengri tíma. Sirrý var með mjög góða fræðslu varðandi steypu og framleiðsluferlið hjá samsteypunni. Á fundinum var rætt um leiðir til að minnka kolefnisspor í byggingariðnaði, losun byggingarefna, LCA-greiningar, EPD-blöð, vistvæna steypu, efnakvörðun og margt fleira. Það er dýrmætt að deila þekkingu og reynslu með öðrum. Við þökkum starfsfólki Hornsteins kærlega fyrir komuna og hlökkum til að miðla þekkingu okkar áfram til iðnaðarins. Svo lengi lærir sem lifir...

  • Fögnum konudeginum

    🌟✨ Kraftur, sköpun og vinátta!   Í dag fögnum við öllum konum í lífi okkar – mæðrum, systrum, vinum og samstarfskonum. 🌸 Strákarnir hjá VERKVIST gleymdu okkur svo sannarlega ekki og sendu okkur heim með glaðning til að njóta um helgina. Í tilefni dagsins eru hér nokkrar skemmtilegar staðreyndir sem haldið hefur verið fram um konur: 👀 Tjáning á augnblikkum:  Konur blikka nær tvöfalt oftar en karlar! Þær hafa einnig lag á að bræða þig með því að setja upp „panda- eða hvolpaaugu" ef allt um þrýtur. 🎉 Félagsverur:  Konur eru einstakar í að stofna og viðhalda vinahópum. Þær sækja í að verja allt að 50% frítíma sínum í félagsskap og tengslamyndun. 🎨💃 Listastelpur:  Konur hafa verið í fararbroddi í listum, allt frá Frida Kahlo til Beyoncé! Sköpunin er í blóðinu! 🤗 Sjálfboðaliðar:  Konur leggja nánast tvöfalt meiri tíma í sjálfboðavinnu en karlar. Hugsjónir hafa kraft! 🍽️ Skynjun:  Konur skynja bragð, lykt og liti betur en karlar! Rúmlega 40% kvenna hafa fundið upp á nýjum réttum til að elda heima. Bon appétit! Í dag er góð áminning um að styðja aðra – sýnum hvort öðru virðingu, gefum blóm, eða bara bros og knús sem kostar ekkert! 🌼 Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt 🌈 Bestu kveðjur, Starfsfólk VERKVISTAR

  • Forvarnir gegn vatnstjóni og viðbrögð í óveðri

    Vatnstjón getur valdið miklum skemmdum á byggingum. Hér eru helstu atriðin sem hafa þarf í huga til að verjast vatnstjóni og bregðast rétt við í óveðri. Veðurspá: Fylgstu með veðurspám og gerðu ráðstafanir ef óveður er væntanlegt. Þakrennur og niðurföll:  Hreinsaðu þakrennur og niðurföll. Gluggar og hurðir:  Gættu þess að vatn komist ekki inn um glugga og hurðar og skoðaðu vel þéttingar. Lausir hlutir:  Fjarlægðu lausa hluti úr garðinum, svölum eða palli til að það valdi ekki skemmdum á eignum. Það lekur hjá mér núna - hvað á ég að gera? Loftræsting:  Almennt gildir að loftræsting er gríðarlega mikilvæg til að raki safnist ekki upp og valdi á endanum umfangsmiklu tjóni. Hleyptu rakanum út:  Ef vatn kemur inn er mikilvægt að hleypa rakanum út, fjarlægja blaut byggingarefni og þurrka vel. Aðgát við hreinsun:  Ef vatn hefur komist undir gólfefni er mikilvægt að hafa gát á þegar verið er að hreinsa með því að afmarka svæðið og nota rétt efni til að gæta þess að valda ekki frekari skemmdum. Þurrkun byggingarefna:  Gott getur verið að smella parketlistum frá, lyfta upp parketi í slæmum tilfellum og þurrka. Mygla hefur myndast - þarf ég aðstoð?:  Hafa ber í huga að ef vatn hefur lekið oft inn eða til lengri tíma þarf að huga að hvort mygla eða aðrar bakteríur hafi náð að vaxa í eða undir byggingarefnum, undir gólfefnum, límum og þess háttar. Í þeim tilfellum sem mygla hefur myndast mælum við eindregið með að leita aðstoðar fagmanna, láta skoða eignina og rakamæla til að koma í veg fyrir að gró frá myglu dreifi sér frekar. Ef rétt er brugðist við er hægt að varna frekari tjóni og skemmdum á innanstokksmunum og öðru byggingarefni. Forvarnir Slagveðurspróf:  Ef vatn kemur inn til þín í slagviðri gefur það mjög góða vísbendinu um frekari skoðun og viðbragða. Slagveðurspróf framkvæmd af fagmönnum hafa reynst mjög vel til að finna helstu veikleika í byggingunni, glufur og skort á þéttingum. Þak:  Skoðaðu þakið reglulega, hreinsaðu þakrennur og niðurföll og gættu að þéttingum í kringum lofttúður og öðrum búnaði á þakinu. Veggir og gluggar:  Athugaðu hvort það séu sprungur eða skemmdir í útveggjum, í klæðningu eða málning komin á tíma. Tryggðu að gluggar og hurðar séu vel þéttar. Loftræsting:  Loftræstu vel, sérstaklega baðherbergi og eldhús. Athugaðu hvort loftræstikerfið virki vel. Þurrka þarf úr gluggum þar sem raki safnast upp þegar hús eru ekki loftræst. Pípulagnir:  Athugaðu pípulagnir reglulega með tilliti til leka og skemmda og hreinsaðu frárennslisrör. Geymsla og bílskúrar:  Notið hillur til að geyma dót til að ekki myndist raki frá botnplötu eða veggjum. Þetta á sérstaklega við niðurgrafin rými. Best er að þung húsgögn liggji ekki alveg upp að útveggjum. Í öllum tilfellum um leka þarf að skoða af hverju vatnið komst inn og gera úrbætur á þéttingum og fyrirbyggja að það gerist ekki aftur. Hafðu samband við fagaðila Ef þú finnur eitthvað athugavert sem krefst frekari skoðunar eða aðstoðar hafðu samband við fagaðila. Við hjá VERKVIST veitum fjölbreytta þjónustu : Ástandsskoðanir, slagveðursprófanir, loftgæðamælingar, sýnatöku, ráðleggingar um viðhald, byggingatækni, endurbætur, forvarnir, vottanir og í raun allt sem tengist heilnæmi bygginga og innilofts. Við vinnum einnig þétt með örðum fagaðilum og húseigendum og getum komið inn á öllum stigum málsins. Sjá nánar á vefsíðu okkar www.verkvist.is Beiðni um ástandsskoðun: skodun@verkvist.is Beiðni um almenna ráðgjöf: verkvist@verkvist.is   VERKVIST verkfræðistofa Hallgerðargata 13, 105 Reykjavík Sími: 419 1500

bottom of page